Fótbolti

Daníel Guðjohnsen orðinn leikmaður Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar einum titlinum sem hann vann með Barcelona.
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar einum titlinum sem hann vann með Barcelona. Vísir/Getty
Félagsskiptabann Barcelona er ekki lengur í gildi og því geta Börsungar nú fengið nýja leikmenn til félagsins á ný. Barcelona mátti ekki fá nýja leikmenn í fjórtán mánuði eftir að FIFA setti félagið í bann.

Forráðamenn Barcelona voru stórtækir á fyrsta degi og skráðu alls 77 nýja leikmenn í félagið í dag. Meðal þeirra eru þeir Arda Turan og Aleix Vidal sem gengu til liðsins í haust en þurftu að bíða í fimm mánuði eftir leikheimild.

Það er búist við því að Arda Turan og Aleix Vidal eigi eftir að styrkja lið Barcelona strax á þessu tímabili en hinir leikmennirnir voru að ganga til liðs við yngri lið félagsins.

Við Íslendingar eigum líka fulltrúa í þessum 77 manna hóp því Daníel Tristan Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, er nú orðinn formlega leikmaður Barcelona. Þetta kemur fram í frétt hjá Mirror.

Eiður Smári Guðjohnsen spilaði einmitt á sínum tíma í þrjú tímabil með Barcelona og vann fimm titla með félaginu. Fjölskylda hans hélt áfram að búa í Barcelona eftir að Eiður Smári yfirgaf félagið sumarið 2009.

Daníel Tristan Guðjohnsen kom til Barcelona síðasta sumar en er nú orðinn formlega leikmaður félagsins. Daníel Tristan raðaði inn mörkum fyrir Gava skólaliðið þar sem hann skoraði 34 mörk í 31 leik.  

Daníel Tristan er fæddur árið 2006 og verður því tíu ára á þessu ári. Hann fæddist á sama ári og Eiður Smári gekk til liðs við Barcelona.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×