Fótbolti

Dani Alves: Ég spila á Englandi á næstu leiktíð

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eitt ár í viðbót, strákar, svo er ég farinn.
Eitt ár í viðbót, strákar, svo er ég farinn. vísir/getty
Dani Alves, bakvörður spænska stórliðsins Barcelona, segist ætla að spila á Englandi á næstu leiktíð en gefur ekki upp hvaða liðs hann gæti verið á leið til.

Talið var að Alves myndi yfirgefa Barcelona í sumar þar sem hann á nú aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Katalóníurisann, en hann ákvað að taka eitt ár til viðbótar.

„Ég flyt til Englands á næsta ári. Ég ætla að spila á heimavelli fótboltans. Þetta er síðasta árið mitt hjá Barcelona,“ segir Alves í viðtali við brasilíska dagblaðið O Globo.

Hann tók ekki fram hvaða liði hann myndi spila með, en Brasilíumaðurinn hefur áður verið orðaður við risa á borð við Liverpool og Manchester United.

Alves gekk í raðir Barcelona frá Sevilla fyrir sex árum, en hann var einn af fyrstu leikmönnunum sem Pep Guardiola fékk til liðsins þegar hann tók við sem þjálfari þess.

Brassinn hefur unnið sextán titla síðan hann kom til Barcelona, spilað 303 leiki, skorað 20 mörk og gefið 85 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×