Handbolti

Dagur verður gestur í þýsku "Pepsi-mörkunum" á sunnudaginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson, þjálfari þýska handboltalandsliðsins, er mjög vinsæll í Þýskalandi eftir að hann gerði þýska liðið að Evrópumeisturum á dögunum.

Sjónvarpsstöðvar í Þýskalandi vilja fá Dag í þætti sína og nú er íslenski handboltaþjálfarinn á leiðinni í vinsælasta knattspyrnu-umræðuþáttinn í þýsku sjónvarpi.

Dagur verður gestur í „Volkswagen Doppelpass“ á SPORT1 sjónvarpsstöðinni sunnudaginn 6. mars næstkomandi.

Dagur valdi handboltann yfir fótboltann á sínum tíma en hann var unglingalandsliðsmaður í báðum íþróttagreinunum. Dagur varð fimmfaldur Íslandsmeistari með Val í byrjun handboltaferilsins og varð mjög snemma fyrir íslenska karlalandsliðsins.

„Ég spilaði bæði handbolta og fótbolta þegar ég var strákur. Ég ákvað að velja handbolta en ég var nú alveg ágætis fótboltamaður," sagði Dagur sem spilaði meðal annars sjö leiki fyrir 17 ára landsliðið í fótbolta.

„Ég horfi oft á þennan þátt og hef mjög gaman af honum," sagði Sagur við handball-world.com. „Volkswagen Doppelpass“ er á dagskrá klukkan 11.00 að þýskum tíma á sunnudagsmorguninn.

Dagur ætlar líka að nota tækifærið til að auglýsa handboltann og handboltalandsliðið sem vann hug og hjörtu þýsku þjóðarinnar á EM í Póllandi.

„Það sá margir okkur á Evrópumótinu og þar voru strákarnir ekki að spila fyrir peninga heldur var það stolt, ástríða og samheldni sem dreif leikmennina áfram. Fólkið heillaðist af því," sagði Dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×