Innlent

Dagur segir Ragnheiði Elínu aðgerðarlausa með öllu

Jakob Bjarnar skrifar
Dagur segir að sveitarstjórnarfólk sé komið með algerlega uppí kok, vegna dáðleysis ráðherra ferðamála.
Dagur segir að sveitarstjórnarfólk sé komið með algerlega uppí kok, vegna dáðleysis ráðherra ferðamála.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, segir staðhæfingar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála furðulegar. Ummælin sem Dagur vísar til eru þær að ráðherra segist ekki vilja sérstakar tekjuleiðir í tengslum við ferðamennskuna til viðbótar þeim sem nú eru, svo sem í gegnum virðisaukaskattkerfið.

Þetta sagði Ragnheiður Elín í viðtali á Þjóðbraut Hringbrautar, þar sem hún gerði lítið úr öðrum tekjumöguleikum og sagði það „bara baunir“. Þetta mega heita óvæntar yfirlýsingar í ljósi þess að eitt helsta mál hennar var Náttúrupassinn svonefndi, sem reyndar komst aldrei á koppinn.

„Þetta er með furðulegri staðhæfingum sem ég hef lesið í seinni tíð. Ráðherra ferðamála virðist ekki nenna að reka af sér slyðruorðið og tryggja að sveitarfélög fái hlutdeild í tekjum af ferðafólki - því það snúist einungis um milljarð á ári!“

Borgarstjóri hellir sér yfir ráðherra á Facebooksíðu sinni, hann telur Ragnheiði Elínu dáðlausa og að verulega sé farið að síga í sveitarstjóranarfólk:

„Já, ráðherrann kallar þann miljarð sem sveitarfélögin hafa verið að kalla eftir til að mæta kostnaði vegna ferðamanna „bara baunir“. Er þarna loks komin ástæðan fyrir algeru aðgerða- og áhugaleysi ráðherra við að koma til móts við þá eðlilegu kröfu að gistináttagjald renni til sveitarfélaga? Það taki því ekki,“ segir Dagur og hann heldur áfram, forviða:

„Fyrir milljarð á ári mætti engu að síður gera gangskör í uppbyggingu innviða, einsog salerna, umhirðu og viðhaldi, einsog hreinsun og malbiksframkvæmdir, þar sem þörfin er brýn víða um land vegna aukins álags og straums ferðamanna. Það er ekki undarlegt að farið sé að þykkna í sveitarstjórnarfólki. Og ráðherra gerir illt verra og hælist um og segir allar kistur séu fullar af gulli hjá ríkinu. Það er í það minnsta ljóst að Ragnheiður Elín ætlar að klára ráðherratíð sína án þess að gera neitt í þessu. Afrakstur heils kjörtímabils: Innviðina vantar víða, aðgerðarleysið er algert og stuðningur við sveitarfélög í þessum mikilvægu verkefnum enginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×