Körfubolti

Dagur Kár á heimleið: „Hann finnur sér góðan stað til að spila á“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Kár Jónsson varð bikarmeistari með Stjörnunni 2015.
Dagur Kár Jónsson varð bikarmeistari með Stjörnunni 2015. vísir/þórdís Inga
Körfuboltamaðurinn ungi Dagur Kár Jónsson sem spilar með St. Francis-háskólanum í Bandaríkjunum er á heimleið og mun spila aftur í Domino's-deildinni. Þetta staðfestir faðir hans, Jón Kr. Gíslason, goðsögn í íslenskum körfubolta, við Vísi. Karfan.is greindi fyrst frá málinu fyrr í kvöld.

„Þetta er rétt. Dagur er á heimleið. Þetta gerðist frekar hratt þannig við erum bara að skoða málin,“ segir Jón Kr. í samtali við Vísi.

Dagur Kár er uppalinn Stjörnumaður en hann spilaði frábærlega fyrir Garðabæjarliðið tímabilið 2014-2015 áður en hann fór út til náms. Hann skoraði 17,6 stig að meðaltali í leik, tók þrjú fráköst og gaf 3,6 stoðsendingar.

Hann verður augljóslega mikill styrkur fyrir hvaða lið sem er í Dominos-deildinni en það er ekki gefið að hann fari heim í Garðabæinn þar sem hann varð bikarmeistari með Stjörnunni 2015.

„Það er ekkert gefið í þessum bransa,“ segir Jón Kr. og hlær. „Við getum eiginlega ekki meira sagt. Dagur er bara á heimleið og hann finnur sér góðan stað til að spila á.“

Jón Kr. vildi ekkert segja til um hvort lið væru búin að hafa samband og hvað þá eftir að fréttin birtist í kvöld. Hann staðfesti engu að síður að áhugi væri svo sannarlega til staðar frá liðum í deildinni á syninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×