Innlent

Dagur hitti Stoltenberg og óvæntan gest í svítunni á Nordica

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Jens Stoltenberg, Dagur B. Eggertsson og Göran Persson brostu sínu breiðasta á Hótel Nordica Hilton í gærkvöldi.
Jens Stoltenberg, Dagur B. Eggertsson og Göran Persson brostu sínu breiðasta á Hótel Nordica Hilton í gærkvöldi. mynd/dagur/hilton
Dagur B. Eggertsson hitti Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Nato og fyrrum forsætisráðherra Noregs, á hótelherbergi hans á Hótel Nordica í gærkvöldi en óvæntur gestur kom á fund þeirra félaga.

„Við Jens kynntumst fyrir nokkrum árum þannig að þegar ég sá að hann var að koma hingað til lands hafði ég samband við hann,“ segir Dagur. Þeir ákváðu að mæla sér mót í gærkvöldi því eins og gefur að skilja eru þeir báðir með ansi þétta dagskrá. „Það sem var ansi skemmtilegt var að fyrsti maðurinn sem ég sé þegar ég kem inn til Jens er Göran Persson. Hann bjóst ég alls ekki við að sjá,“ segir Dagur og hlær. Göran Persson var forsætisráðherra Svíþjóðar en sagði skilið við stjórnmál í Svíþjóð árið 2006. Persson var staddur hér á landi í því skyni að halda ávarp á Ársfundi atvinnulífsins 2015 í Hörpu í gær. „Ég þekkti hann nánast ekki neitt,“ segir Dagur. „Það var gaman að hitta hann.“

Andri Snær hælir Degi og bendir á mikilvægi góðra tengsla

Myndin af Degi hefur vakið athygli í dag en rithöfundurinn Andri Snær Magnason deilir henni á Facebook og hrósar Degi fyrir að vera í góðum tengslum við ráðamenn á öðrum Norðurlöndum.

„Deili þessu þar sem það er alvarlegt hvað stjórnmálamenn okkar hafa verið illa tengdir og hvað sem segja má um flokkakerfið og ungliðasamtök þá er slíkt starf mikilvægt til að rækta tengsl milli landa en Ísland virðist hafa gleymt þessu og orðið munaðarlaust í seinni tíð og ESB paranojan gerir þetta bara verra,“ sagði Andri Snær en færslu hans í heild sinni má sjá neðst í fréttinni.

Dagur tekur undir mikilvægi þess að vera í sambandi við forystufólk í stjórnmálum í nágrannalöndum okkar. „Ég held að þetta sé mjög vanmetið. Það er mjög gott að bera saman bækur sínar við annað fólk. Ég finn það líka bara í samskiptum mínum við borgarstjóra á Norðurlöndunum. Sérstaklega þá sem eru jafnaðarmenn eins og ég.“ 

Ræddu Íslandsmál, pólitík og NATO

Félagarnir þrír áttu góða stund saman að sögn Dags. „Þeim er mjög hlýtt til Íslands og hafa greinilega fylgst vel með. Það er gaman að heyra þeirra sjónarhorn á þróun eftir hrun og hvað þeir eru að hugsa í þeim efnum,“ útskýrir Dagur.

„Ég var líka svolítið forvitinn að vita hvernig Jens hefði það í nýju hlutverki. Það kom mér, eins og mörgum, á óvart að hann skyldi hætta í norskri pólitík og gerast framkvæmdastjóri NATO.“ Dagur segir hann láta vel að sér en að vissulega hafi hann þurft að kljást við erfiðar aðstæður og vísar í núverandi ástand í Úkraínu. 

Persson er mikill húmoristi að sögn Dags en þegar hann leit á myndina af þremenningunum sagði hann: „Ég er nú sá eini sem lít út fyrir að hafa verið forsætisráðherra á þessari mynd.“

Færslu Dags má sjá hér að neðan. Fyrir neðan hana er færsla Andra Snæs. 

"Ég er nú sá eini sem lít út fyrir að hafa verið forsætisráðherra á þessari mynd," sagði Göran Persson og hló þegar hann...

Posted by Dagur B. Eggertsson on Friday, April 17, 2015

Hér er góður drengur Dagur B. Eggertsson íslenskur stjórnmálamaður, í góðu sambandi við tvo fyrrverandi forsætisráðherra...

Posted by Andri Snær Magnason on Friday, April 17, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×