Handbolti

Dagur fagnaði sigri í fyrsta leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur á hliðarlínunni í kvöld.
Dagur á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Getty
Dagur Sigurðsson vann í kvöld sinn fyrsta mótsleik sem landsliðsþjálfari Þýskalands en liðið hafði betur gegn Finnlandi, 30-18, á heimavelli.

Þjóðverjar voru komnir með tíu marka forystu eftir aðeins 20 mínútna leik og því ljóst í hvað stefndi. Sterkari andstæðingar bíða þó handan við hornið þar sem að Spánn og Austurríki eru saman í riðli.

Lærisveinar Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu töpuðu fyrir Spánverjum í kvöld, 27-16. Aðeins einn leikmaður Austurríkis skoraði meira en tvö mörk í leiknum en það var Robert Weber sem skoraði þrjú.

Dagur og Patrekur mætast með lið sín í Vínarborg á sunnudag en þess má geta að Dagur þjálfaði áður landslið Austurríkis með góðum árangri og snýr því nú á sinn gamla heimavöll.

Lítið var um óvænt úrslit í öðrum riðlum. Noregur vann Tyrkland örugglega, 36-27, og Makedónía hafði betur gegn Sviss, 31-30. Þá gerðu Bosnía og Hvíta-Rússland jafntefli, 25-25.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×