Innlent

Dagur B. lýsir yfir stuðningi við Magnús Orra í formannskjöri

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Magnús Orri Schram er einn fjögurra frambjóðenda í formannskjöri Samfylkingarinnar. Dagur B. er borgarstjóri.
Magnús Orri Schram er einn fjögurra frambjóðenda í formannskjöri Samfylkingarinnar. Dagur B. er borgarstjóri. Vísir
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í borginni, hefur lýst yfir stuðningi við Magnús Orra Schram í formannsslag Samfylkingarinnar. Kosning um næsta formann flokksins stendur yfir núna og verður kynnt um nýjan formann á landsþingi Samfylkingarinnar um helgina.

Dagur lýsir þessu yfir á Facebook síðu sinni.

„Formannsframbjóðendurnir eru allir frambærilegir en ég leyni því ekki að ég tel að í núverandi stöðu eigum við besta kostinn í Magnúsi Orra Schram (Magnús Orri Schram),“ skrifar Dagur. „Ég hef persónulega reynslu af krafti og eldmóði Magga Orra, bæði þegar vel gengur og móti blæs, en síðast ekki síst þegar taka þarf til hendinni. Honum er lagið að fá fólk til að setja ágreining upp á borðið ef ágreningur er fyrir hendi og takast á við viðfangsefnin frekar en að ýta þeim á undan sér. Hann leiðir mál til lausnar, af sanngirni og víðsýni. Þess vegna nýtur hann trausts langt út fyrir raðir flokksflólks.“

Í framboði eru auk Magnúsar þau Oddný Harðardóttir, Helgi Hjörvar og Guðmundur Ari Sigurjónsson. 

Borgarstjórinn telur Magnús Orra vera þann mann sem Samfylkingin þarf í dag. „Hann er einlægur talsmaður menntunar og norrænnar velferðar, umhverfismála, loftslagsmála og öflugs atvinnulífs. En síðast ekki síst er hann liðsheildarmaður sem ég treysti til að leiða hvaða hóp sem er, ná upp stemmningu og eldmóði, hrífa fólk með sér og horfa fram á veginn. Og það er leiðin sem við eigum að vera á: fram og upp! Koma svo!“

Dagur segist jafnframt stoltur af því að tilheyra stjórnmálaflokki sem gefur öllu flokksfólki tækifæri til að kjósa nýja forystu. Kosning fer fram með rafrænum hætti og eru allir þeir sem skráðir eru í Samfylkinguna á kjörskrá en það eru um sautján þúsund manns. Dagur hvetur alla sem hafa rétt til að kjósa að nýta kosningarétt sinn.

„Samfylking þarf á samtakamætti alls jafnarfólks landsins að halda, til að rétta úr erfiðri stöðu og lágu fylgi í aðdraganda Alþingiskosninga í haust.“






Tengdar fréttir

Fylgi Samfylkingarinnar að gufa upp

Rúm sex prósent myndu kjósa Samfylkinguna ef kosið væri nú. Af öllum flokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi mælist einungis Björt framtíð með minna fylgi. Þrefalt fleiri myndu kjósa VG en Samfylkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×