Handbolti

Dagur: Við erum betri en Katar

Arnar Björnsson í Doha skrifar
Dagur Sigurðsson er ólíkur Guðmundi Guðmundssyni. Á meðan það sést langar leiðir hvort Guðmundur tapar eða vinnur þá sýnir Dagur engin svipbrigði. Guðmundur horfði á tapleik Dana og Spánverja í gærkvöldi en er Dagur búinn að kíkja á leik Þjóðverja og Katara?

„Nei ég er ekki búinn að því. Ég horfði aðeins á Króatana sem eru okkar næstu mótherjar og við ætlum að undirbúa þann leik vel“.

Hvernig brugðust leikmennirnir við í leikslok þegar það lá ljóst fyrir að þið voruð úr leik í baráttunni um að keppa til verðlauna?

„Þeir voru náttúrulega sárir. Þetta voru vonbrigði því við vorum búnir að spila vel. Fyrsta tapið situr eðlilega í mönnum. Ég held að menn hafi ekki reiknað með því að við færum taplausir í gegnum mótið en það var sárt að ósigurinn kom á þessum tímapunkti“.

Nú heyrir maður að Katarar hafi fengið ögn hagstæðari dómgæslu en gengur og gerist í venjulegum handboltaleik en menn vilja ekki segja þetta opinberlega.

„Já án þess að taka þátt í þeim umræðum þá verða menn bara að gera það á einhverjum öðrum vettvangi. Við áttum mörg tækifæri til að klára þetta sjálfir, þannig að við hefðum bara þurft að vera aðeins betri“.

Eru þið með betra handboltalið en Katarar?

„Já ég er á þeirri skoðun en það má ekki gleyma því að þeir eru að spila á heimavelli. Þeir léku vel í gær og voru frískari“.

 

Er erfitt að koma mönnum aftur að verkefninu eftir að hafa misst af tækifærinu að komast í undanúrslit?

„Já það er verkefni að fá þá til að hugsa um þessa leiki. Það hjálpar til að það er gulrót sem er sæti í forkeppni fyrir næstu Olympíuleika. Auðvitað vilja þeir allir þangað og það gildir fyrir öll þessi lið sem eru að spila um 5-8. sætið. Þau koma öll með vonbrigði inn í þá keppni en öll með þessa gulrót“.


Tengdar fréttir

Dagur gefur mömmu skýrslu eftir hvern leik

Þýskaland mætir í dag heimamönnum í Katar í 8-liða úrslitum á HM í handbolta. Þjóðverjar, undir stjórn Dags Sigurðssonar, hafa spilað frábærlega á mótinu og fóru létt með Egyptaland í 16-liða úrslitunum.

Guðmundur og Dagur geta mæst á ný á HM í Katar

Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson horfðu báðir upp á sín lið detta út úr átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar. Lærisveinar Guðmundar í danska landsliðinu töpuðu á móti Spáni en lærisveinar Dags í þýska landsliðinu lágu á móti heimamönnum í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×