Handbolti

Dagur: Þurfum að sýna annað andlit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Það er stórleikur í þýsku úrvalsdeildinni í dag en þá tekur Füchse Berlin, lið Dags Sigurðssonar, á móti HSV Hamburg.

Hamburg hefur verið í miklum fjárhagslegum vandræðum og var félaginu naumlega bjargað frá gjaldþroti. Það fékk ekki keppnisleyfi í þýsku úrvalsdeildinni fyrr en um seint og síðir en liðið er þó engu að síður í áttunda sæti deildarinnar sem stendur.

Füchse Berlin, sem hefur verið í vandræðum með leikmannahóp sinn vegna tíðra meiðsla lykilmanna, er í sjöunda sætinu. Dagur lætur af störfum sem þjálfari liðsins í sumar og vill koma liðinu í Evrópukeppni áður en hann hættir.

Hamburg virðist í góðu formi en liðið vann nýverið sigur á Magdeburg, liði Geirs Sveinssonar, sem er í baráttu um þriðja sæti deildarinnar. Füchse Berlin, sem fór vel af stað eftir HM-fríið, steinlá fyrir Melsungen í síðustu umferð, 31-24.

„Við spiluðum illa gegn Melsungen og við þurfum í öllu falli að sýna annað andlit gegn HSV. Nú er komið að leikjunum þar sem við þurfum virkilega á stuðningi okkar áhorfenda að halda,“ sagði Dagur í samtali við þýska fjölmiðla.

Bæði lið eru með 28 stig en Füchse Berlin á leik til góða. Liðið er sex stigum á eftir Göppingen sem er í fimmta og síðasta Evrópusætinu sem stendur.

Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD og hefst klukkan 17.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×