Handbolti

Dagur: Menn brosa allan hringinn núna

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Dagur lyftir bikarnum í dag.
Dagur lyftir bikarnum í dag. vísir/getty
„Þetta var svakalegt. Ég er alveg búinn. Þetta var aðeins of mikið,“ segir Dagur Sigurðsson, þjálfari Füchse Berlin, við Vísi en hans lið lagði Flensburg, 22-21, í úrslitaleik þýsku bikarkeppninnar í dag. Þetta er fyrsti stóri titillinn í sögu félagsins.

„Þetta er mögnuð stund fyrir okkur hjá félaginu. Það sem hefur verið að gerast á síðustu fimm árum hjá okkur er magnað. Þetta er viðurkenning á því starfi og það brosa allir allan hringinn núna.“

Dagur segist hafa mætt nokkuð bjartsýnn inn í helgina. Hans lið lék ekki nógu vel gegn Melsungen í undanúrslitunum í gær en hafði þó sigur.

„Ég var viss um að við myndum spila betur í úrslitaleiknum. Við vissum að pressan yrði á Flensburg. Við spiluðum fantavörn og fengum markvörslu. Auðvitað smá heppni líka en þetta var verðskuldað og mjög sætt."

Dagur er á sínu fimmta ári með liðið og segir að þetta sé hans stærsta stund á þjálfaraferlinum.

„Þetta er án efa stærsta stundin. Ef maður kíkir á hvaða lið hafa unnið þennan titil þá eru það meira og minna bara Kiel síðustu ár og svo Flensburg og Hamburg einstaka sinnum. Það er því stórt að vinna þennan titil í baráttu við þessi stóru lið. Þetta er gríðarlega sterkt," segir Dagur stoltur.

„Ég hefði alltaf verið stoltur af því að koma liðinu í úrslit en það er samt svo stór munur á því að vinna og komast í úrslit. Það er ekki það sama."


Tengdar fréttir

Fuchse Berlin bikarmeistari í Þýskalandi

Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Fuchse Berlin unnu Flensburg í úrslitum þýska bikarsins í handbolta í dag. Með sigrinum brauð Dagur blað í sögu Fuchse Berlin en þetta var í fyrsta sinn sögu félagsins sem þeir vinna þýska bikarinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×