Handbolti

Dagur: Feginn að sleppa við sirkusinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Dagur Sigurðsson á blaðamannafundinum á Hilton-hótelinu í morgun.
Dagur Sigurðsson á blaðamannafundinum á Hilton-hótelinu í morgun. Vísir/Eva Björk
Dagur Sigurðsson undirbýr lið sitt nú fyrir erfiðan leik gegn Egyptalandi í 16-liða úrslitum HM í Katar á morgun.

Þýskaland vann í gær öruggan sigur á Sádí Arabíu og tryggði sér þar með sigur í hinum geysisterka C-riðli. Hann var spurður á blaðamannafundi þýska liðsins hvort hann væri feginn að hafa sloppið við Ísland í 16-liða úrslitunum.

„Já. Ekki síst til að forðast einmitt þessar spurningar,“ sagði Dagur og uppskar mikinn hlátur á fundinum. Vísir hitti á hann svo eftir við hann og spurði hann út í ummælin.

„Það eru tvær ástæður. Í fyrsta lagi hvað þeir geta verið erfiðir í svona leikjum, þar sem allt er undir. Þeir eru reynslumiklir og ef þeir fara réttu megin fram úr er erfitt að eiga að við þá,“ sagði Dagur en viðtalið má heyra hér efst í fréttinni.

„Í öðru lagi bara til að losna við sirkusinn,“ sagði hann og hló.

Dagur segir að gengi þýska liðsins í riðlinum hafi vissulega verið framar vonum en Þjóðverjar urðu efstir í riðlinum en gátu samt leyft sér að taka því rólega gegn Sádí Arabíu í gær.

„Að enda í fyrsta sæti í þessum riðli er svolítil upphefð fyrir okkur þó það sé engin ávísun um sigur í næsta leik. En maður finnur að það er aðeins léttara í kringum handboltann í Þýskalandi þar sem þeir sjá nú að þeir eru ekki búnir að missa af lestinni með landsliðið sitt. Þeir endurheimtu smá stolt.“

Það kom Degi á óvart að Þjóðverjum hafi tekist að vinna riðilinn. „Það verður bara að segjast eins og er. Mjög margt gekk upp hjá okkur - bæði varðandi leikmannavalið og hvernig ungir strákar hafa stigið upp.“

„Það var ekki hægt að reikna með því leik eftir leik og þó svo að ég hafi vitað að þeir gætu spilað flottan handbolta var maður ekki viss um að þeir gætu haldið haus í svo mikilvægum leikjum.“

Egyptaland hefur mikinn stuðning hér í Katar og skapast frábær stemning á leikjum liðsins. Dagur reiknar með að það geti skipt máli í leiknum á morgun.

„Þetta verður 50/50 leikur, þannig lagað. Við erum kannski eitthvað sterkari í handbolta en þeir fara langt á krafti, vilja og djöfulgangi. Þetta verður örugglega erfitt og það er bara gaman að takast á við það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×