Innlent

Dagpeningar ríkisstarfsmanna stórhækka þótt verðbólga sé lítil

Sveinn Arnarsson skrifar
Stjórnaráðshúsið
Stjórnaráðshúsið
Dagpeningagreiðslur til ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands hækka gríðarlega samkvæmt nýrri auglýsingu ferðakostnaðarnefndar. Gisting og fæði í einn sólarhring hækkar um 40 prósent og gisting í einn sólarhring hækkar um 70 prósent. Formaður fjárlaganefndar undrast svo mikla hækkun.

Ferðakostnaðarnefnd hins opinbera hefur ákveðið dagpeninga til greiðslu gisti- og fæðiskostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum innanlands. Tekur sú ákvörðun gildi frá og með 1. júní. Fellur þá úr gildi ákvörðun nefndarinnar frá 1. nóvember 2015.

Fæði í heilan og hálfan dag helst hins vegar óbreytt. 11.200 krónur fá ríkisstarfsmenn í fæðispening fyrir heilan dag en 5.600 fyrir hálfan. Því ýtir kostnaður við gistingu dagpeningunum upp. Segir á vef fjármálaráðuneytisins um forsendur ákvörðunar um dagpeningagreiðslur að „gistikostnaður miðast við verð á einsmannsherbergi með eða án baðs og er tekið tillit til fjölda herbergja á hverjum stað með og án baðs. Í grunninum eru hótel víðs vegar um landið.“

Því er ljóst af verðkönnun fjármálaráðuneytisins að gisting hér á landi hefur hækkað um á bilinu 40 til 70 prósent frá því í lok október í fyrra.

Vigdís Hauksdóttir alþingismaður
Vigdís segir þessa hækkun nokkuð ríflega. „Nefndin verður að sýna fram á rökstuðning fyrir svo mikilli hækkun. Einhvern veginn efa ég að verð á gistingu í landinu hafi hækkað svo gríðarlega á síðustu mánuðum,“ segir Vigdís.

Athygli vekur að á þessu átta mánaða tímabili hefur vísitala neysluverðs staðið í stað. Frá nóvember og til maí hækkaði vísitalan um aðeins eitt prósent. Því getur vísitöluhækkun ekki útskýrt svo mikla hækkun á dagpeningum ríkisstarfsmanna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×