Innlent

Dæmdur til 200 þúsund króna sektargreiðslu fyrir vörslu barnakláms

atli ísleifsson skrifar
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri.
Héraðsdómur Norðurlands eystra á Akureyri. Vísir/pjetur
Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt mann til 200 þúsund króna sektargreiðslu fyrir vörslu og að hafa skoðað barnaklám í tölvu sinni.

Maðurinn var handtekinn af lögreglu á heimili sínu í október á síðasta ári eftir að ábending barst um að gróft barnaklám væri að finna í tölvu í hans fórum. Í borðtölvu mannsins fundust myndir og myndskeið af börnum sem sýnd voru á kynferðislegan og klámfenginn hátt eða samskonar myndir af einstaklingum sem orðnir voru átján ára, sem voru í hlutverki barns.

Í dómnum kemur fram að þar hafi fundist fjörutíu klámfengnar myndir og ein myndbandaskrá.

Maðurinn kvaðst fyrir dómi ekki kannast við þetta efni og ekki geta skýrt tilkomu þess, en hann hafði þá keypt tölvuna notaða af öðrum manni. Hann gat þó ekki skýrt það að einhverjar skrárnar hafi verið opnaðar eftir að hann keypti tölvuna.

Maðurinn sem seldi ákærða tölvuna sagðist hins vegar hafa selt honum hana eftir að hafa „straujað“ hana, og áleit dómurinn framburð ákærða ekki vera trúverðugan.

Maðurinn rauf með dómnum skilorð en hann hafði þrívegis áður verið dæmdur fyrir ölvunarakstur og fleiri brot gegn umferðarlögum.

Ákærði var jafnframt dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 126.480 krónur, auk þess að borðtölvan var gerð upptæk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×