Innlent

Dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir líkamsárás í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Karlmaður var dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn samfanga sínum í Hegningarhúsinu í Reykjavík þann 2. mars. Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að árásin hafi verið algerlega tilefnislaus.

Maðurinn veittist að öðrum fanga á útisvæði aftan við Hegningarhúsið við Skólavörðustíg í Reykjavík. Hann sló manninn ítrekað í andlit og höfuð svo hann nefbrotnaði, tognaði og hlaut ofáreynslu á hálshrygg, hlaut mar og sár í andliti kringum auga vinstra megin, bjúg í efri hluta sjónhimnu á vinstra auga og sár í munni.

Fórnarlambið fór þar að auki fram á eina milljón krónur auk vaxta í miskabætur sem og bóta vegna kostnaðar við lögmannsaðstoðar.

Ákærði játaði sök og krafðist vægustu refsingar. Hann á sér sögu afbrota frá árinu 1993 vegna margvíslegra brota gegn hegningarlögum. Ekki þótti tilefni til að skilorðsbinda refsinguna með hliðsjón af sakaferli mannsins.

Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness til tólf mánaðafangelsisvistar og til að greiða 308.725 krónur í sakarkostnað. Þá var hann einnig dæmdur til að greiða 400 þúsund krónur í miskabætur ásamt vöxtum sem og 225.900 krónur vegna málskostnaðar fórnarlambsins.

Dóminn má sjá hér á heimasíðu Héraðsdóms Reykjaness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×