Innlent

Dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
LÆF hefur aðsetur í Hinu húsinu.
LÆF hefur aðsetur í Hinu húsinu. vísir/gva
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Natan Kolbeinsson, fyrrverandi formann og gjaldkera Landssambands æskulýðsfélaga, LÆF, í skilorðsbundið 45 daga fangelsi, fyrir fjárdrátt á tímabilinu 26. október 2015 til 23. nóvember 2015.

Á þeim tíma starfaði Natan í sjálfboðavinnu sem gjaldkeri LÆF og dró hann í 17 skipti að sér fé sambandsins, samtals kr. 412.080,- með millifærslum af reikningum sambandsins. Í dómi Héraðsdóms kemur fram að ákærði hafi skýlaust játað brot sín og fellur refsingin niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærði skilorð sitt.

Stjórn LÆF kaus sér nýjan meðstjórnanda á sérstökum neyðarfundi í júlí, í fyrra, eftir að Natan sagði af sér embætti þegar grunur vaknaði um fjárdrátt af hans hálfu.

Til stóð að leggja fram vantrauststillögu á Natan, sem hætti áður en til hennar kom. Natan hafði áður setið í stjórn nokkurra félaga. Hann sagði sig einnig úr stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík og uppstillingarnefnd flokksins í Reykjavík, fyrir Alþingiskosningar haustið 2016.

Stjórn LÆF lagði jafnframt fram siðareglur á umræddum fundi, til að fyrirbyggja að nokkuð slíkt gæti komið fyrir aftur.

„Ég sé innilega eftir því sem ég gerði. Að auki óska ég nýrri stjórn velfarnaðar í starfi sínu,“ sagði Natan í samtali við Vísi, í júlí 2016.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×