Innlent

Dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir að rassskella son sinn

Birgir Olgeirsson skrifar
Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. Vísir/Hari
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir líkamsárás og brot á barnaverndarlögum með því að hafa slegið fjögurra ára gamlan son sinn á rassinn með þeim afleiðingum að drengurinn hlaut fjölmargar húðblæðingar og mar á báðum rasskinnum og upp spjaldhryggssvæðið.

Atvikið átti sér stað 16. ágúst í fyrra en móðir drengsins kærði barnsföður sinn fyrir hönd ólögráða sonar hennar sex dögum síðar.

Móðirin lýsti málsatvikum þannig að eftir að sonur hennar hafði komið frá því að dvelja hjá föður sínum hafi systir drengsins sagt henni frá því að maðurinn hefði rassskellt drenginn. Við skoðun hafi komið í ljós miklir marblettir á rassi brotaþola og neðri hluta baks.

Maðurinn neitaði staðfastlega sök en Héraðsdómur Reykjaness taldi ljóst að drengnum hafði verið refsað. Maðurinn gat ekki gefið skýringar á áverkum drengsins en upplýsti að mögulega hafi hann dottið af þríhjóli. Í vitnisburði lækna kom fram að mjög ósennilegt væri að brotaþoli hafi hlotið áverkana við fall og að áverkarnir samrýmist ekki því að brotaþoli hafi fallið á leikfang og að áverkarnir hafi ekki komið til við eitt högg.

Þótti sannað að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Auk skilorðsbundins fangelsisdóms var manninum gert að greiða drengnum 250 þúsund krónur í miskabætur.

Sjá dóminn hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×