Innlent

Dæmdur í sex mánaða nálgunarbann í Hæstarétti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn hefur ítrekað beitt fyrrverandi eiginkonu sína ofbeldi.
Maðurinn hefur ítrekað beitt fyrrverandi eiginkonu sína ofbeldi. Vísir/Getty
Hæstiréttur dæmdi í gær karlmann í sex mánaða nálgunarbann gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni en hann er grunaður um að hafa beitt hana ofbeldi. Rétturinn sneri þar með við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem áður hafði hafnað kröfu lögreglustjóra höfuðborgarsvæðinu um að maðurinn skyldi sæta nálgunarbanni.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar að manninum  hafi áður verið dæmdur í nálgunarbann og þá í 12 mánuði. Þá hafi hann einnig verið dæmdur fyrir líkamsárás gegn fyrrum eiginkonu sinni og dóttur hennar.

Í því tilfelli sló maðurinn konuna í höfuð og maga auk þess sem hann hrækti á hana og reif í hár hennar. Þá reyndi hann að bíta hana í andlitið. Maðurinn reif einnig í hár stjúpdóttur sinnar, kýldi hana í andlitið, hrinti henni í gólfið og sparkaði að minnsta kosti tvívegis í höfuð hennar þar sem hún lá á gólfinu.

Sjá einnig: Þrjú nálgunarbönn felld úr gildi.

Hæstiréttur telur að friðhelgi konunnar verði ekki verndað með öðrum hætti en nálgunarbanni eins og sakir standa. Konan hafi leitað til lögreglu nú í febrúar vegna ofbeldis af hálfu mannsins sem kom óboðinn inn á heimili hennar. 

Í nálgunarbanninu felst að maðurinn megi ekki koma á heimili konunnar eða vera í grennd við það á svæði sem afmarkast af 50 metrum í kringum húsið. Þá má hann ekki veita konunni eftirför, nálgast hana á almannafæri né setja sig í samband við hana með öðrum hætti.

Maðurinn og konan eiga tvö börn saman en nálgunarbannið nær ekki til þeirra og er manninum því frjálst að hitta þau að vild.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×