Innlent

Dæmdur í fangelsi fyrir gróft ofbeldi gegn eiginkonu sinni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Að mati Hæstaréttar réðst maðurinn að eiginkonu sinn með grófum hætti.
Að mati Hæstaréttar réðst maðurinn að eiginkonu sinn með grófum hætti. vísir/getty
Hæstiréttur dæmdi á miðvikudaginn karlmann í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna, fyrir líkamsárás gegn eiginkonu sinni. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur dæmt manninn í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi en Hæstiréttur mat það manninum til refsiþyngingar „að hann hefði ráðist að eiginkonu sinni á grófan hátt á heimili þeirra og ætti hann sér engar málsbætur.“

Rétturinn leit síðan til þess að óútskýrður dráttur hefði orðið á rannsókn málsins og var hluti refsingarinnar því skilorðsbundinn.

Maðurinn var dæmdur fyrir að hafa „annars vegar dregið eiginkonu sína inn á baðherberg heimilis þeirra, reynt að ýta höfði hennar í klósett, hótað henni með hníf og kastað honum á eftir henni er hún flýði út af heimili þeirra.“ Þá var maðurinn einnig dæmdur fyrir að hafa veist að konunni með ofbeldi og hótunum þar sem hún lá inni í hjónaherbergi með ungan son þeirra.

Fyrra brot mannsins átti sér stað í ágúst árið 2012 og hið síðara ári síðar, í ágúst 2013. Ákæra var hins vegar ekki gefin út fyrr en í janúar 2015 og endanlega ekki dæmt í málinu fyrr en nú en dráttur á málinu er óútskýrður samkvæmt dómi Hæstaréttar sem má lesa í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×