Innlent

Dæmdur fyrir manndráp af gáleysi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brúin yfir Hóla í Öræfasveit er einbreið eins og fjölmargar brýr á Íslandi.
Brúin yfir Hóla í Öræfasveit er einbreið eins og fjölmargar brýr á Íslandi. Mynd/GoogleMaps
Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun kínverskan karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi.

Var honum gefið að sök að hafa ekið bifreið inn á einbreiða brú við Hólá í Öræfasveit of hratt miðað við aðstæður og án nægjanlegrar aðgæslur svo úr varð árekstur. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar lést en hann var 47 ára gamall erlendur ferðamaður.

Maðurinn hafði neitað sök en breytti síðan afstöðu sinni fyrir dómi og játaði. Eva B. Helgadóttir, verjandi mannsins, segir að hann hafi verið í þvingaðri stöðu þegar hann játaði þar sem hann þurfti nauðsynlega að komast til síns heima en maðurinn býr í London.

Eva segir að ef hann hefði ekki komist til London fyrir mánaðarlok hefði dvalar-og búsetuleyfi hans í Englandi runnið út. Um leið og hann játaði sök í málinu var farbanni yfir honum aflétt og fór hann af landi brott á laugardag.

Manninum var gert að greiða allan sakarkostnað málsins, alls rúmar 4,7 milljónir króna.


Tengdar fréttir

Neitar sök vegna banaslyss um jólin

Kínverskur karlmaður sem ákærður hefur verið fyrir manndráp af gáleysi neitaði sök við fyrirtöku málsins þann 4. mars síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×