Innlent

Dæmdur fyrir manndráp af gáleysi í Öræfasveit

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brúin yfir Hólá í Öræfasveit er einbreið eins og svo margar brýr á Íslandi.
Brúin yfir Hólá í Öræfasveit er einbreið eins og svo margar brýr á Íslandi. Google maps
Hæstiréttur staðfesti í dag þriggja mánaða dóm yfir 28 ára gömlum kínverskum ferðamanni fyrir manndráp af gáleysi eftir árekstur á einbreiðri brú í Öræfasveit um jólin 2015. Japanskur ökumaður lést í slysinu.

Fangelsisdómurinn er skilorðsbundinn en Kínverjinn var sviptur ökuréttindum í tíu mánuði. Þá var hann dæmdur til að borga lögreglunni á Suðurlandi tæpar 3,6 milljónir króna í kostnað við rannsóknina og lögmanni sínum 1,2 milljónir í málsvarnarlaun.

Birtingarmynd vaxtarverkja

„Mál umbjóðanda míns er að mínu mati birtingarmynd af vaxtarverkjum íslenskrar ferðaþjónustu,“ sagði Eva B. Helgadóttir, lögmaður kínversks mannsins, þegar dómur féll í héraði í mars í fyrra.

Maðurinn var fljótlega settur í farbann af Héraðsdómi Suðurlands að kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi sem taldi hann hafa ekið of hratt. Tveimur dögum eftir að Hæstiréttur staðfesti farbannið sneri hann við blaðinu og játaði.

„Það má segja að hann hafi verið í þvingaðri stöðu til þess að játa til þess að geta komist heim til sín,“ sagði Eva. Maðurinn hafi átt töluverða hagsmuni undir því að geta farið heim til sín til London.

Lengri dvöl hefði sett allt í uppnám

„Búsetu og dvalarleyfi hans er háð lágmarksviðveru hans þar. Ef hann hefði ekki komist heim fyrir mánaðamót þá hefði hann verið að setja aflahæfi sitt, það er fyrirtæki sitt, og heimili í uppnám,“ segir Eva.

Samkvæmt ákærunni sem maðurinn játaði ók hann of hratt í snjó og krapi og án nægjanlegrar aðgæslu þannig að hann hafði ekki fulla stjórn á bílnum er honum var ekið framan á bíl sem var nær kominn yfir einbreiða brú úr gagnstæðri átt.


Tengdar fréttir

Dæmdur fyrir manndráp af gáleysi

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun kínverskan karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir manndráp af gáleysi. Maðurinn játaði sök en hann fór af landi brott á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×