Innlent

Dæmdur fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Maðurinn, sem var 17 ára þegar brotin voru framin, er sagður hafa sent kynferðislegar myndir á Facebook og Snapchat.
Maðurinn, sem var 17 ára þegar brotin voru framin, er sagður hafa sent kynferðislegar myndir á Facebook og Snapchat. vísir/getty
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn fjórtán ára stúlku. Brotin áttu sér stað árið 2013 þegar maðurinn var sautján ára.

Pilturinn var sagður hafa áreitt stúlkuna í gegnum Facebook og Snapchat með því að ræða ítrekað við hana á kynferðislegan hátt og biðja hana um að hitta sig í því skyni að hafa við hana kynferðismök. Þá hafi hann sent henni myndir af kynfærum sýnum og fengið hana til þess að senda sér sambærilegar myndir.

Jafnframt var hann sakaður um að hafa mælt sér mót við stúlkuna í kynferðislegum tilgangi. Er hann sagður hafa ekið með hana á afvikinn stað og haft við hana samræði í bílnum og í tvö skipti farið með hana á heimili sitt og haft þar við hana samræði.

Maðurinn játaði brot sín. Í niðurstöðu dómsins segir að við ákvörðun refsingarinnar hafi ekki verið litið fram hjá því að um hafi verið að ræða ítrekuð kynferðisbrot gegn 14 ára stúlku. Hins vegar liggi fyrir skýlaus játning og þá hafi pilturinn verið ungur er brotin voru framin. Hann sé seinþroska, samkvæmt gögnum málsins, og hafi ávallt verið bekk á eftir jafnöldrum sínum. Í ljósi þessa hafi verið beitt lækkunarheimild við ákvörðun refsingarinnar.

Manninum var gert að greiða stúlkunni 300 þúsund krónur í bætur og 511 þúsund krónur í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×