Innlent

Dæmdur fyrir að taka mann hálstaki í strætisvagni

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Atvikið átti sér stað í maí á þessu ári.
Atvikið átti sér stað í maí á þessu ári. Vísir/Ernir
Ungur karlmaður var í Héraðdsómi Reykjaness í liðinni viku dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir líkamsárás, þjófnað, rán og nytjastuld.

Meðal brota sem maðurinn var sakfelldur fyrir má nefna að hafa stolið tveimur rafmagnsvespum fyrir utan Salalaug í Kópavogi í maí á þessu ári. Í sama mánuði veittist hann að manni í strætóskýli við Nýbýlaveg með kúbeini og sagt við hann „þú veist hvernig þetta er“. Úr krafsinu hafði hann úlpu, veski og iPhone snjallsíma.

Þá var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa tekið mann hálstaki í strætó á ferð og hert svo að öndunarvegi hans að hann missti meðvitund. Atvikið átti sér stað í júlí í fyrra.

Sakborningurinn játaði sök. Maðurinn er ungur að árum en hefur áður verið sakfelldur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum en einnig brot gegn áfengislögum, lögum um ávana- og fíkniefni og vopnalögum. Með brotum sínum nú rauf hann skilorð fyrri dóms.

Ungur aldur mannsins var metinn honum til málsbóta og því þótti unnt að skilorðsbinda fimmtán mánuði refsingarinnar. Frá refsingu piltsins dregst gæsluvarðhaldsvist hans frá 26. maí í ár. Þá er honum gert að greiða sakarkostnað málsins, 36.000 krónur, og laun verjanda síns, 768.800 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×