Innlent

Dæmdur fyrir að hrinda ungum dreng og troða snjó inn á hann

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Atvikið varð í Grafarvogi.
Atvikið varð í Grafarvogi. Vísir/Vilhelm
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag rúmlega fertugan karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á ungan dreng. Maðurinn hrinti honum í snjóskafl og tróð snjó inn á hann.

Atvikið varð fyrir um ári síðan í Grafarvogi. Forsaga málsins er sú að strákurinn var ásamt vini sínum við fjölbýlishús að reyna að kasta snjóboltum upp á svalir hússins. Maðurinn var hjá barnsmóður sinni, sem býr á jarðhæð hússins, og var hvolpurinn hennar úti á palli við íbúðina.

Maðurinn sá að snjór var á hvolpinum og spurði drengina hvort þeir hefðu verið að kasta í hundinn. Þeir neituðu og sögðu að snjór hefði dottið af svölunum á hvolpinn en manninum fannst það ótrúlegt og sagði strákunum að fara sem þeir og gerðu.

Þeir komu svo aftur og köstuðu snjóboltum í glugga hjá manninum. Við það kom hann út og hlupu drengirnir í burtu. Maðurinn elti annan þeirra og sagði drengurinn fyrir dómi að maðurinn hefði „fellt hann í jörðina, snúið honum við, sett snjó inn á hann og lamið hann ofarlega á brjóstkassa eða öxl.“

Maðurinn játaði að hafa troðið snjó inn á drenginn en neitaði að hafa hrint honum eða rifið í úlpu hans, eins og honum var gefið að sök í ákæru.

Dómurinn taldi hins vegar sannað að maðurinn hefði hrint stráknum, meðal annars með tilliti til þeirra áverka sem hann hlaut. Þá kvaðst 14 ára stúlka, sem varð vitni að árásinni, hafa séð manninn taka drenginn „harkalega niður.“

Dóm héraðsdóms má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×