Erlent

Dæmdir fyrir hópnauðgun sem var sýnd beint á Facebook

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað í lok janúar síðastliðinn.
Árásin átti sér stað í lok janúar síðastliðinn. Vísir/Getty
Dómstóll í Uppsölum í Svíþjóð dæmdi í dag tvo menn til fangelsisvistar fyrir að hafa nauðgað konu og þriðja manninn fyrir að hafa sýnt beint frá árásinni á Facebook.

Mennirnir sem nauðguðu konunni eru á aldrinum 21 og átján ára og hlaut sá eldri tveggja ára og fjögurra mánaða dóm, en sá yngri eins árs dóm. Félagi þeirra sem tók upp árásina er 24 ára og hlaut sex mánaða dóm.

Árásin átti sér stað í í íbúð í Uppsölum, norður af Stokkhólmi, í lok janúar og var hún sýnd beint í lokuðum Facebook-hóp þar sem í eru um 60 þúsund manns.

Fjölmargir tilkynntu lögreglu um árásina og í lok útsendingarinnar mátti sjá hvernig lögregla ruddist inn í íbúðina og stöðvaði útsendinguna.

Í samtali við SVT segist lögmaður eins árásarmannins að hann geri ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×