Innlent

Dæmd til dauða fyrir að drepa nauðgarann eiginmann sinn

Jakob Bjarnar skrifar
Frá Súdan. Amnesty hvetur almenning til að skrifa undir áskorun til dómsmálaráðherra í Súdan, þess efnis að lífi Nouru verði þyrmt.
Frá Súdan. Amnesty hvetur almenning til að skrifa undir áskorun til dómsmálaráðherra í Súdan, þess efnis að lífi Nouru verði þyrmt. ASHRAF SHAZLY / AFP
Amnesty International hefur sent út áskorun til almennings, hvatningu þess efnis að skrifa undir áskorun til dómsmálaráðherra Súdan, um að horfið verði frá því að fullnægja dauðadómi yfir hinni 19 ára gömlu Nouru Hussein. Hún var dæmd til dauða fyrir að drepa eiginmann sinn. Dómstólar í Súdan telja að Noura sé sek um morð af yfirlögðu ráði en Amnesty telur einsýnt að hún hafi drepið manninn í sjálfsvörn, þá er hann vildi nauðga henni.

Erlendir miðlar hafa greint frá málinu, svo sem BBC, en í frásögn Amnesty kemur fram að Noura hafi aðeins verið 16 ára þá er hún var gefin manni gegn vilja sínum. Faðir hennar og eiginmaðurinn gerðu samning sín á milli og þegar Noura lauk grunnskóla í Apríl var henni gert að flytja inn til eiginmannsins.

„Þegar nýi eiginmaður Nouru nauðgaði henni í fyrsta sinn fékk hann tvo bræður sína og frænda til að halda henni niðri á meðan hann kom vilja sínum fram. Þar sem Noura var ekki viljug til að „fullkomna hjónbandið með samræði“, enda lagðist hún gegn ráðahagnum allt frá upphafi, þvingaði eiginmaðurinn hana til þess. Morguninn eftir gerði hann aðra tilraun til að nauðga henni en Nouru tókst að flýja inn í eldhús þar sem hún greip hníf. Í kjölfar ryskinga þeirra á milli hlaut eiginmaðurinn banvæna hnífsstungu. Strax í kjölfarið leitaði Noura til fjölskyldu sinnar en faðir hennar afhenti hana lögregluyfirvöldum og í framhaldinu snéri öll fjölskyldan baki við henni,“ segir í frétt og áskorun Amnesty.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×