Innlent

Dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og þjófnað

Atli Ísleifsson skrifar
Ísafjörður.
Ísafjörður. Vísir/Pjetur
Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt konu í sex mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og þjófnað. Fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að þremur árum liðnum haldi konan almennt skilorð.

Í dómnum kemur fram að konan hafi aðfaranótt 7. febrúar síðastliðinn ráðist á konu, fyrst í anddyri íþróttahúss með því að slá hana með hægri olnboga í andlit og taka hana kverkataki. Skömmu síðar hafi hún ráðist á hana á ný á gangi fyrir framan búningsklefa kvenna, með því að kýla hana einu hnefahöggi með hægri hendi í andlit.

Segir að árásin hafi haft þær afleiðingar að fórnarlambið fékk mar í andlit og verk yfir höfuðkúpu ofan við vinstra eyra, bólgu á báðum vörum, rispu á háls, mar á upphandlegg og ofanverðan brjóstkassa, stirðleika og eymsli í hálshrygg, auk þess sem hliðarframtönn vinstra megin í efri kjálka brotnaði, sem og bráðabirgðatannbrú í efri kjálka vinstra megin.

Konan var jafnframt dæmd fyrir að hafa stolið andlitskremi úr verslun Lyfju, en hún hefur sex sinnum áður verið sakfelld vegna refsilagabrota.

Hún var einnig dæmd til að greiða fórnarlambi líkamsárásarinnar rúmar 400 þúsund krónur, Lyfju rúmar sex þúsund krónur vegna stuldsins, auk máls- og sakarkostnaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×