Innlent

Dæmd fyrir ummæli á Facebook

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Snæfellsnesi.
Frá Snæfellsnesi. Vísir/GVA
Ung kona á Snæfellsnesi hefur verið dæmd fyrir ærumeiðingar í Héraðsdómi Vesturlands fyrir ummæli sem hún lét falla á Facebook um oddvita Eyja- og Miklaholtshrepps og Ólaf Ólafsson. Ólafur situr nú inni á Kvíabryggju vegna Al-Thani málsins svokallaða. Konan sagði að Ólafur hefði gefið oddvitanum nýjan traktor.

Fjölskylda konunnar og fjölskylda Ólafs eiga sitthvora jörðina á Miðhrauni og hafa þau deilt um árabil. Við skýrslutökur sagði konan að oddvitinn hefði komið að þessum deilum með ýmsum hætti og hefði hann yfirleitt tekið hagsmuni Ólafs fram yfir hagsmuni þeirra.

Konan, sem heitir Anna Sesselja Sigurðardóttir, var dæmd fyrir þessi ummæli: „[...] En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir Ólafi Ólafssyni sem á Miðhraun 1. Enda gaf Ólafur honum nýjan traktor (mútur eða hvað?) [...]“. Var henni gert að greiða fimmtíu þúsund krónur í ríkissjóð eða sæta fangelsisvist í fjóra daga. Þá voru ummælin dæmd dauð og ómerk.

Fékk traktor að láni

Hún breytti ummælum sínum fljótlega og eyddi þeim nokkrum dögum seinna. Þá segist konan einnig hafa beðist afsökunnar. „Ég er búin að viðurkenna að ég gerði rangt með því að alhæfa um traktorinn og ég er búin að biðjast afsökunar á því,“ er haft eftir henni í dómnum.

Oddvitinn, sem heitir Guðbjartur Gunnarsson, sagði fyrir dómi að hann hefði ekki verið sáttur við ummælin og honum hefði þótt þetta of langt gengið.

„Sagðist hann hafa átt símtal við hana skömmu síðar en þar hefði ekki komið fram nein afsökun af hennar hálfu. Hún hefði nefnt það að hún gæti tekið ummælin af Facebook-síðunni með þeim orðum að hún vildi ekki særa viðkvæmar sálir en sannleikur væri alltaf sannleikur,“ segir í dómnum.

Þar að auki sagðist hann aldrei hafa fengið gefins traktor frá Ólafi, en hann hafi fengið tæki lánuð hjá honum, eins og væri algengt á milli bænda. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu það að oddvitinn hefði fengið traktor gefins ætti ekki við rök að styðjast.

Konunni var einnig gert að greiða skipuðum verjanda sínum 1,2 milljónir króna. Dóm Héraðsdóms Vesturlands má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×