Lífið

Dægurlagafélagið lætur gott af sér leiða

guðrún ansnes skrifar
Ekki nóg með að vera afbragðs skemmtikraftar, þá hafa þeir hjörtu úr gulli og safna fyrir Tönju Kolbrúnu.
Ekki nóg með að vera afbragðs skemmtikraftar, þá hafa þeir hjörtu úr gulli og safna fyrir Tönju Kolbrúnu. vísir
„Við erum alltaf að leita okkur að ástæðu til að koma saman, og þetta tilefni gæti ekki verið verðugra,“ segir Heimir Eyvindarson, hljómborðsleikari Á móti sól, spurður um samkrull nokkurra kanóna íslenska tónlistarlífsins.

Um ræðir svokallað Dægurlagafélag, sem inniheldur þá Einar Bárðarson, Hreim Örn Heimisson, Ingólf Þórarinsson Veðurguð og Heimi.

„Við vorum svolítið í að koma saman og gerðum það síðast fyrir um einu og hálfu ári. Þá spilum við lögin okkar, segjum sögurnar og sprellum svolítið hver á kostnað annars. Við ætluðum alltaf að halda áfram en svo vantar í okkur drifkraftinn,“ segir Heimir.

Munu þeir taka upp þráðinn, en sparkið í þessa músíkölsku skemmtanarassa er söfnun til styrktar fjölskyldu Tönju Kolbrúnar Fannarsdóttur, þriggja ára stúlku á Selfossi sem berst við hvítblæði.

„Við vildum gera eitthvað til að hjálpa og lá beinast við að rúlla í þetta. Í þau skipti sem við komum fram hér um árið var alltaf uppselt svo við vonumst til að svoleiðis verði það líka núna,“ bætir Heimir við. Munu þeir Einar Ágúst Víðisson og Herbert Viðarsson úr Skítamóral bætast í hópinn í þetta skiptið.

Tónleikauppistandið fer fram í Tryggvaskála á sunnudaginn klukkan 22.00 og allur aðgangseyrir rennur til fjölskyldunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×