Körfubolti

Curry jafnaði þristamet Korver í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Curry lætur vaða.
Curry lætur vaða. vísir/getty
Stephen Curry, leikmaður Golden State Warriors, jafnaði í nótt met Kyle Korver en þeir hafa nú skorað þriggja stiga körfu í flestum leikjum í NBA-deildinni í röð.

Curry setti niður sex þriggja skot í 12 tilraunum þegar Golden State vann 112-118 sigur á Miami Heat í nótt en hann hefur nú skorað a.m.k. eina þriggja stiga körfu í 127 leikjum í röð. Hann deilir metinu með Korver sem leikur með Atlanta Hawks.

Curry mistókst síðast að skora þriggja stiga körfu þegar Golden State tapaði fyrir San Antonio Spurs, 100-113, 11. nóvember 2014. Curry var kaldur í þeim leik og brenndi af öllum sjö þriggja stiga skotum sínum.

Umræddur leikur gegn San Antonio var algjör undantekning frá reglunni hjá Curry en þessi magnaða skytta hefur skorað a.m.k. eina þriggja stiga körfu í 202 af síðustu 203 leikjum sínum.

Curry heldur áfram að setja ný viðmið í þriggja stiga skotum en hann er á góðri leið með að slá þristametið sem hann setti á síðasta tímabili.

Þá setti Curry niður 286 þrista en hann er þegar kominn með 266 í vetur en Golden State á enn eftir að leika 26 leiki í deildakeppninni.

Curry reynir flest þriggja stiga skot að meðaltali í leik í NBA (10,8) og hittir úr flestum (4,9). Þá er skotnýtingin frábær, eða 45,5%. Aðeins tveir leikmenn eru með betri þriggja stiga nýtingu á tímabilinu en Curry; J.J. Redick hjá Los Angeles Clippers (48,1%) og Kawhi Leonard hjá San Antonio Spurs (48,0%).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×