Fótbolti

Cruyff: Vont fyrir augum að horfa á hollenska landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Johan Cruyff.
Johan Cruyff. Vísir/Getty
Johan Cruyff, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, hefur aldrei verið feiminn við að gagnrýna hollenska landsliðið og það hefur hann gert eftir slæmt gengi liðsins í undankeppni EM 2016.

Holland er með Íslandi í riðli og tapaði eftirminnilega í leik liðanna á Laugardalsvelli í haust, 2-0. Þá hefur liðið einnig tapað fyrir Tyrklandi og var lengi undir gegn Kasakstan á heimavelli.

Steininn tók svo úr að mati Cruyff þegar Holland bjargaði jafntefli gegn Tyrklandi með marki Klaas-Jan Huntelaar í uppbótartíma í leik liðanna í Amsterdam um helgina.

„Það verður að gera breytingar og það fljótt því svona fótbolti er vondur fyrir augun,“ skrifaði Cruyff í pistli sem birtist í hollenska blaðinu De Telegraaf.

„Við höfum ekkert og ég velti fyrir mér hvenær þeir munu loks láta viðvörunarbjöllurnar hringja.“

Holland er í þriðja sæti A-riðils með sjö stig eftir fimm leiki. Tékkland er efst með þrettán stig og Ísland er í öðru sæti með tólf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×