Enski boltinn

Coutinho: Hef prófað þetta áður á æfingu og af hverju ekki að reyna þetta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho hefur sagt frá því hvað hann var að hugsa þegar hann skoraði markið mikilvæga á móti Manchester United á Old Trafford í gærkvöldi. Markið var stórglæsilegt einstaklingsframtak hjá Coutinho og það gerði nánast út um viðureignina.

Markið skoraði Coutinho í uppbótartíma fyrri hálfleiksins og jafnaði þá metin í 1-1. Hann skildi fyrst bakvörðinn Guillermo Varela eftir áður en hann lyfti boltanum smekklega yfir David de Gea, markvörð Manchester United, sem kom út á móti honum.

Menn voru fljótir að grafa upp mark sem Philippe Coutinho skoraði fyrir Internazionale fyrir fjórum árum síðan og Brasilíumaðurinn sjálfur viðkenndi í samtali við UEFA að hann hafi ekki verið að reyna þetta í fyrsta sinn.

„Ég fékk tækiæri til að komast einn á móti De Gea og ég hef prófað þetta áður á æfingu þannig að ég hugsaði; af hverju ekki?," sagði Philippe Coutinho í samtali við UEFA.com.

„Ég var heppinn og þetta gekk upp. Það er alveg hægt að halda því fram að þetta sé eitt besta markið mitt fyrir Liverpool. Það sem skipti þó öllu mál var að liðið spilaði vel á stóra sviðinu, við sköpuðum fullt af færum og sýndum hversu öflugir við erum," sagði Philippe Coutinho.

„Það er mjög góður andi í hópnum eftir tíu leiki í röð í Evrópudeildinni án þess að tapa. Þessi velgengni á móti Manchester United byggir upp sjálfstraustið enn frekar og við ætlum okkur stóra hluti í framtíðinni," sagði Coutinho.

Markið glæsilega og mikilvæga hjá Philippe Coutinho er aðgengilegt í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×