Innlent

Costco opnar verslun í Kauptúni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Costco er ein stærsta smásölukeðja heims með rúmlega 650 verslanir í tíu löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Japan.
Costco er ein stærsta smásölukeðja heims með rúmlega 650 verslanir í tíu löndum, þar á meðal í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Japan. Vísir/AFP
Bandaríski smásölurisinn Costco hyggst kaupa 14.000 fermetra verslunarhúsnæði í Kauptúni í Garðabæ og ætlar að opna verslun þar fyrir næstu jól. Frá þessu var greint í fréttum RÚV í kvöld.

Í sumar var sagt frá því að verslunarkeðjan hefði átt í viðræðum við yfirvöld í Reykjavík og Garðabæ, með það fyrir augun að opna verslun annað hvort í Kauptúni eða á Korputorgi.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir í samtali við fréttastofu að bærinn hafi heyrt af því í síðustu viku að verslunarkeðjan valdi Kauptún fram yfir Korputorg. Hann gerir ráð fyrir því að forsvarsmenn Costco komi að máli við bæjaryfirvöld Garðabæjar á næstunni til að ræða skipulagsmál í tengslum við opnun verslunarinnar.

„Þetta er gott ímynd bæjarins, hverfið sem er þarna fyrir ofan og vonandi allt höfuðborgarsvæði. Við vonumst til að þetta efli samkeppni og komi til með að lækka vöruverð til neytenda,“ segir Gunnar.

Fyrirhuguð opnun Costco hér á landi vakti mikla athygli í sumar, ekki síst vegna þess að Costco vildi fá að selja lyf og áfengi í verslunum sínum, auk þess að flytja inn ferskt kjöt frá Bandaríkjunum.

Slíkt er bannað með lögum og þarf fyrirtækið undanþágur fyrir slíku. Í því samhengi sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, að ekki stæði til að veita Costco undanþágur umfram aðrar verslanir. Áður hafði Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, lýst sig andsnúna því að Costco fengi að flytja inn erlent kjöt þar sem það gæti leitt til heilsuleysis.


Tengdar fréttir

Bjarni vill bæta umhverfi verslunar með auknu frelsi í vöruframboði

Fjármála- og efnahagsráðherra er hlynntur því að bæta umhverfi smásöluverslana í landinu og auka frelsi í vöruframboði þeirra. Hann segir að slíkar breytingar verði alltaf gerðar með almennum hætti en ekki aðeins til að greiða götu bandaríska fyrirtækisins Costco hér á landi.

Costco skrefinu nær með orkusöluleyfi

Umhverfis- og skipulagsráð samþykkir orkusölu Costco með skilyrðum. Samtök verslunar og þjónustu fagna því ef frjálsræði eykst í verslun með innflutningi á kjöti og áfengissölu í verslunum.

Allir skulu sitja við sama borð

Formaður Samtaka Iðnaðarins furðar sig á skyndilegum áhuga íslenskra stjórnvalda á umturnun íslensks rekstrarumhverfis.

Fagna grundvallabreytingu stjórnvalda

Hagar fagna yfirlýsingu iðnaðar- og viðskiptaráðherra um breytingu á stefnu stjórnvalda í málum sem snúa að viðskiptafrelsi með sjálfsagðar neysluvörur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×