Enski boltinn

Costa segist vera opinn fyrir því að leika í frönsku deildinni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Diego Costa segist vera opinn fyrir því að leika í frönsku deildinni einn daginn en hann hefur verið orðaður við kínversku deildina sem og Atletico Madrid undanfarna mánuði.

Framherjinn hefur daðrað við hugmyndina um að yfirgefa Chelsea síðastliðið ár en hann vildi upphaflega snúa aftur til Atletico Madrid. Þegar sá möguleiki var úr sögunni daðraði hann við kínverska gullið í janúarglugganum.

Þrátt fyrir allar þessar sögusagnir hefur Costa verið duglegur að skora mikilvæg mörk fyrir Chelsea en hann hefur skorað átján mörk í öllum keppnum á þessu tímabili.

Aðspurður út í framhaldið hjá honum gaf hann tvísýn svör.

„Það er aldrei að vita hvað gerist í framtíðinni, ég er ánægður í dag hjá Chelsea en ef kínverskt félag leggur fram tilboð og Chelsea segir mér að ég sé á förum þá mun ég yfirgefa félagið,“ sagði Costa sem útilokar ekki stóru liðin í Frakklandi.

„Ef það eru breytingar framundan hjá mér þá er Frakkland spennandi land sem ég hef aldrei leikið í svo ég útiloka ekki að fara í frönsku deildina. PSG er með þekkt lið út um alla Evrópu og Monaco er einnig með spennandi lið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×