Enski boltinn

Costa og Cahill klárir fyrir helgina

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Costa í baráttunni í leik Barcelona og Chelsea.
Costa í baráttunni í leik Barcelona og Chelsea. Vísir/Getty
Diego Costa og Gary Cahill hafa báðir náð sér af meiðslunum sem þeir urðu fyrir í æfingarleik gegn Barcelona á miðvikudaginn og geta tekið þátt í leiknum upp á Samfélagsskjöldinn gegn Arsenal á sunnudaginn.

Báðir leikmennirnir fóru meiddir af velli í leiknum sem lauk með 2-2 jafntefli en Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, staðfesti að meiðslin væru ekki alvarleg. Cahill lenti í því óheppilega atviki að nefbrotna þegar hann jafnaði metinn. Komst hann á undan markverði Barcelona í boltann og skallaði boltann í autt netið en fékk að launum þungt högg frá Jordi Masip, þriðja markverði Barcelona.

Diego Costa fann fyrir eymslum aftan í lærinu eftir sextíu mínútna leik en Mourinho staðfesti í viðtali í dag að hann væri heill heilsu fyrir leik helgarinnar.

„Það er allt í góðum málum. Ég hef úr þremur góðum framherjum að velja og við þurfum ekkert að gera neinar sérstakar ráðstafanir vegna Costa. Það eru allir heilir og tilbúnir í þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×