Erlent

Costa Concorida komið til Genóa

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Ítalska skemmtiferðaskipið Costa Concordia kom í nótt upp að ströndum Genóa þar sem skipið verður fært til hafnar og rifið. Björgun skipsins er umfangsmesta og dýrasta björgunaraðgerð sem framkvæmd hefur verið á sjó.

Skemmtiferðaskipið Costa Concordia steytti á skeri við ítölsku eyjuna Giglio undan ströndum Toskana héraðs í janúar árið 2012 með þeim afleiðingum að 32 farþegar skipsins létu lífið. Skipstjóri Costa Concordia hefur neitað sök um að hafa orðið fjölda farþega að bana með vítaverðu gáleysi og fyrir að yfirgefa skipið á slysstað. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsi.

Vinna við að koma skipinu af strandstað hefur tekið tvö ár og er lýst sem umfangsmestu og dýrustu björgurnaraðgerð sem framkvæmd hefur verið á sjó. Fjóra daga tók að draga skemmtiferðaskipið til Genóa með dráttarbátum á gönguhraða. Áætlað er að skipið komi til hafnar eftir hádegi í dag.

Costa Concordia skemmtiferðaskipið var byggt og sjósett í Genóa fyrir níu árum við mikinn mannfögnuð. Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, verður viðstaddur þegar skipið kemur til hafnar. Renzi hefur hrósað björgunaraðilum í hásterkt og segir það sýna að Ítalir geti tekist á við hvaða verkefni sem er. Ítölum hafi tekist að framkvæma það sem margir töldu ómögulegt - að koma flaki Costa Concordia í heilu lagi til hafnar.

Umhverfisverndarsinnar höfðu varað við að mengunarslys gæti hlotist af því draga skipið til hafnar og spáðu jafnframt að skipið ætti eftir að liðast í sundur. Síðasta ferð Costa Concordia hefur hins vegar gengið að óskum.

Áður en vinna við að rífa skipið hefst þá verður gerð ítarleg leit að líki skipverja sem hefur ekki enn fundist. Gert er ráð fyrir að um 80 prósent af stáli skipsins verði endurunnið. Áætlaður kostnaður við björgun á flaki Costa Concordia hleypur á um 1,2 milljörðum sterlingspunda eða um 230 milljörðum króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×