Erlent

Costa Concordia dregið af stað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/ap
Ítalska skemmtiferðaskipið Costa Concordia er nú í sinni hinstu siglingu en flak skipsins var dregið af stað í dag. Flakið verður dregið til hafnar í Genóa á Ítalíu þar sem það verður rifið niður í brotajárn.

Skipinu hefur verið haldið á floti í níu daga með gríðar stórum flothylkjum sem búið er að festa við skipið. Áætlað er að ferðin muni taka fjóra daga, en siglt verður á gönguhraða, eða á um fjórum kílómetrum á klukkustund. Skipið verður dregið af tveimur bátum og verða tíu aðrir með í för til að fylgjast með gangi mála, hreinsa upp eiturefni og annað sem gæti fallið til.

Framkvæmdir þessar eru þær stærstu og umfangsmestu í sögunni og hefur töluverð spenna fylgt þeim því ýmislegt sem gæti farið úrskeiðis. Náttúran á strandstað er afar viðkvæm og lífríki fjölbreytt og kom því aldrei til greina að sprengja eða rífa skipið á strandstað. Svæðið er friðlýst og hefði það valdið of miklu tjóni. Umhverfisverndarsamtök á Ítalíu hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna hugsanlegs mengunarslyss sem skipið gæti valdið, en telja eigendur skipsins samtökin ofmeta hættuna.

Rúmlega fjögur þúsund og tvö hundruð manns, af sextíu þjóðernum, voru um borð í skipinu þegar það steytti á skeri undan ströndum eyjunnar Giglio hinn þrettánda janúar 2012. Alls létust þrjátíu og tveir. Skipstjórinn og fimm aðrir úr áhöfninni voru sakfelldir fyrir manndráp vegna málsins.  

Kostnaður við verkefnið er þegar kominn upp í milljarð evra, en heildarkostnaður er talinn verða um einn og hálfur milljarður evra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×