Enski boltinn

Costa: Ég var of þungur í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Diego Costa segir að hann hafi farið illa af stað með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni því hann var of þungur þegar hann sneri aftur til Lundúna í sumar.

Costa hefur aðeins skorað eitt mark í sex deildarleikjum til þessa og þrátt fyrir að Jose Mourinho hafi fengið mestu sökina á sig fyrir slæmt gengi liðsins verði leikmenn segir Costa að hann verði að taka eitthvað á sig.

Um þetta leyti í fyrra hafði Costa skorað átta mörk í ensku úrvalsdelidinni en hann viðurkennir að hafa leyft sér of mikið í sumar eftir að hann varð enskur meistari í vor.

„Ég ætla að vera heiðarlegur og viðurkenna að fyrir 5-6 vikum síðan var ég ekki upp á mitt besta - að minnsta kosti ekki líkamlega,“ sagði hann í viðtali við The Telegraph í gær.

„Ég meiddist undir lok síðasta tímabils og fór svo í frí. Ég gætti ekki að mér í matarræðinu og var ekki líkur sjálfum mér þegar ég kom til baka. Það hafði áhrif á mína frammistöðu.“

„Það er ekkert mál að skella skuldinni á knattspyrnustjórann en það ætla ég ekki að gera. Ég ber 100 prósent ábyrgð á sjálfum mér rétt eins og allir aðrir leikmenn.“

„Það eina sem við getum gert er að leggja hart að okkur og reyna að komast aftur á sama stað og við vorum á síðasta tímabili.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×