Erlent

Corbyn mælist með öruggt forskot á Smith

Atli Ísleifsson skrifar
Jeremy Corbyn tók mið formannsembættinu í breska Verkamannaflokknum á síðasta ári.
Jeremy Corbyn tók mið formannsembættinu í breska Verkamannaflokknum á síðasta ári. Vísir/AFP
Ný skoðanakönnun YouGov bendir til þess að Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins, muni sigra örugglega í formannskjöri flokksins sem nú stendur yfir.

Corbyn mælist með 62 prósent fylgi á meðal flokksmanna en Owen Smith 38 prósent. Könnunin var gerð fyrir breska blaðið Times.

Corbyn virðist njóta mikils stuðnings á meðal flokksmanna, þó að fjöldi þingmanna hafi lýst yfir efasemdum um að hann sé rétti maðurinn til að leiða flokkinn.

Corbyn var kjörinn formaður flokksins á síðasta ári í kjölfar afsagnar Ed Miliband. Corbyn var þá kjörinn með 59,5 prósent atkvæða.

Könnunin bendir þó til þess að Corbyn njóti mest stuðnings á meðal nýskráðra flokksmanna. Flokksmenn sem skráðir voru fyrir maí 2015 – það er sá hópur sem tryggði Corbyn formannsembættið á síðasta ári – eru nú líklegri til að greiða atkvæði með Smith. Þannig segjast 68 prósent þeirra vilja sjá Smith sem leiðtoga flokksins.

Í frétt Independent kemur fram að 640 þúsund flokksmenn megi greiða atkvæði í formannskjörinu sem hófst í síðustu viku. Niðurstöður kjörsins munu liggja fyrir á árlegu landsþingi flokksins sem fram fer dagana 25. til 28. september.

Owen Smith hefur átt sæti á breska þinginu frá árinu 2010.


Tengdar fréttir

Hiti í kappræðum formannsefna Verkamannaflokksins

Owen Smith og Jeremy Corbyn bjóða sig fram til formanns Verkamannaflokksins. Smith sagðist í kappræðum vilja ræða við Íslamska ríkið og sagði Corbyn hugmyndina vanhugsaða. Formannskjörið hefur einkennst af vandræðagangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×