Enski boltinn

Conte ætlar að lögsækja Chelsea

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Conte vann enska bikarinn í  vor og Englandsmeistaratitilinn fyrir ári síðan
Conte vann enska bikarinn í vor og Englandsmeistaratitilinn fyrir ári síðan vísir/getty
Antonio Conte ætlar að lögsækja fyrrum vinnuveitanda sinn, Chelsea, fyrir það hversu langan tíma félagið tók sér í að reka hann. Conte telur að félagið hafi kostað hann nýja atvinnumöguleika.

Chelsea tilkynnti formlega að Conte hefði verið leystur frá störfum í síðustu viku. Það hafði hins vegar verið umræða um brottrekstur hans allt frá því um áramótin þar sem hann átti ekki í góðu sambandi við stjórnarmeðlimi félagsins.

Conte vann ensku bikarkeppnina með Chelsea í vor. Hann fór svo í sumarfrí og heyrði ekkert frá félaginu fyrr en hann snéri aftur til vinnu fyrir tveimur vikum og fór að undirbúa undirbúningstímabil liðsins. Hann var með leikmönnunum í fjóra daga áður en hann var rekinn eftir fund með stjórnarformanni Chelsea. Alls liðu 55 dagar frá bikarsigrinum þar til hann var rekinn.

Ítalinn er reiður út í Chelsea fyrir að hafa haldið honum í vinnu svo lengi þegar það virtist löngu ljóst að ætti að reka hann. Hann segir félagið hafa kostað hann tækifæri á að komast í vinnu annars staðar í sumar og er lögfræðiteymi hans að undirbúa lögsókn þar sem Conte krefst bóta eftir því sem kemur fram í grein breska blaðsins Times.

Hann á nú þegar inni hjá félaginu 9 milljónir punda í laun út upphaflegt samningstímabil hans. Chelsea hefur hins vegar hótað að halda þeim peningi vegna hegðunar Conte í garð félagsins og stjórnarinnar á síðasta tímabili.

Chelsea tilkynnti Maurizio Sarri sem nýjan knattspyrnustjóra félagsins sólarhring eftir brottrekstur Conte.


Tengdar fréttir

Conte fékk bara þriggja línu kveðju frá Chelsea

Chelsea tilkynnti starfslok Antonio Conte inn á heimasíðu sinni í dag en ítalski knattspyrnustjórinn fékk þó ekki langa kveðju frá félaginu sem hann gerði bæði að Englandsmeisturum og enskum bikarmeisturum á tveimur árum í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×