Enski boltinn

Conte: Diego Costa vill vera áfram hjá Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte og Diego Costa á góðri stundu.
Antonio Conte og Diego Costa á góðri stundu. Vísir/Getty
Það er ekki hægt að heyra annað en að Diego Costa muni spila sinn hundraðasta leik með Chelsea á móti Hull á sunnudaginn.

Diego Costa var ekki í leikmannahópi Chelsea um síðustu helgi og í framhaldinu var mikið skrifað um það í enskum miðlum að Costa vildi fara frá félaginu eftir rifildi við knattspyrnustjórann Antonio Conte og ofurtilboð frá Kína.

Opinbera ástæðan fyrir fjarveru Diego Costa í leiknum var að hann hefði meiðst á baki á æfingu. Antonio Conte var spurður út í Diego Costa á blaðamannafundi í dag.

„Ég held að hann vilji vera áfram hjá Chelsea. Hann er ánægður með að halda áfram að spila fyrir okkur,“ sagði Antonio Conte.

Diego Costa hefur skorað 14 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Ég sé engin vandamál í mínu liði. Ég hef heyrt mikið af sögusögnum um Diego en aðalatriðið er að hann æfði með okkur í vikunni, er laus við bakverkinn og getur spilað um helgina,“ sagði Antonio Conte.

„Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og það vitum við allir. Þegar hann er klár og í formi þá hefur hann alltaf spilað hjá mér,“ sagði Conte en mun Diego Costa þá byrja inná á móti Hull á sunnudaginn?

„Við sjáum til. Ég vil ekki gefa mótherjanum eitthvað forskot. Það er frábært fyrir hann að ná að spila hundrað leiki fyrir félagið og ég vona að við getum haldið upp á það með sigri,“ sagði Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×