Sport

Conor við Aldo: Þú munt hætta eftir þennan bardaga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dana White, forseti UFC, passar að Aldo og McGregor hjóli ekki í hvorn annan.
Dana White, forseti UFC, passar að Aldo og McGregor hjóli ekki í hvorn annan. vísir/getty
„Mér líkar ekki illa við neinn keppanda og ég ber virðingu fyrir hverjum þeim sem stígur í búrið. En þetta eru viðskipti. Ef þú verður á milli mín og þess sem ég þarf að gera geng ég frá þér,“ segir Conor McGregor í viðtali við á FOX.

Conor og heimsmeistarinn í fjaðurvigt, Jose Aldo, voru í viðtali á FOX Sports, en fyrir viðtalið stalst Conor í beltið hans Aldo eins og sjá má hér að neðan.

„Það er rétt, ég setti beltið á mig og hann gerði ekkert í því. Hann gerði heldur ekkert á sviðinu um daginn og hann mun ekkert gera í búrinu þegar við berjumst,“ segir Conor en Aldo svarar:

„Þetta er algengt. Hann vill prófa að bera það en fær aldrei beltið mitt. Ég mun halda því áfram.“

Írski Íslandsvinurinn, sem reynir að hirða heimsmeistaratitilinn af Aldo 11. júlí, ætlar sér sigur.

„Ég hef gengið frá öllum þeim sem ég hef barist við. Ég gerði deildina að því sem hún er í dag. Þetta er McGregor-deildin. Minn tími er kominn,“ segir Írinn.

Aldo finnst lítið til þeirra ummæla koma: „Við munum sjá að hann er bara kjafturinn. Ég er kóngurinn og mun halda beltinu. Ég virði gæði hans sem bardagakappa en í búrinu snýst þetta um mig og ég mun vinna,“ segir hann og bætir við:

„Hann er grínkall. Hann getur sagt það sem hann vill en ég mun halda beltinu og mun hætta sem meistari.“

Eina sem Conor veit er að Aldo mun hætta, en ekki sem heimsmeistari „Það er rétt. Þú munt hætta eftir þennan bardaga,“ segir Conor McGregor.

Þetta áhugaverða spjall má sjá hér að neðan.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×