Sport

Conor fékk að minnsta kosti 35 milljónir fyrir hverja sekúndu í búrinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Conor McGregor fékk vel borgað fyrir bardagann.
Conor McGregor fékk vel borgað fyrir bardagann. vísir/getty
Conor McGregor fékk vel borgað fyrir sín störf í búrinu á sunnudagsmorguninn þegar hann rotaði Jose Aldo og tryggði sér heimsmeistaratitilinn í fjaðurvigt í UFC.

Það tók írska sprelligosann ekki nema þrettán sekúndur að rota Brasilíumanninn og eru laun hans fyrir hverja sekúndu heldur betur góð.

Blaðamenn Forbes hafa verið að reyna að reikna út hversu mikið Írinn fékk fyrir sekúndurnar þrettán og miða við lægstu og hæstu mögulegu upphæð.

Bardaginn var í pay-per-view en ekki í venjulegri dagskrá og heldur Forbes því fram að samningur Conors tryggi honum 3-5 dollara af hverri keyptri áskrift að kvöldinu.

Ekki er vitað hversu margir nákvæmlega keyptu sér aðgang að UFC 194 en talið er að fjöldinn hafi farið vel yfir milljón.

Ef miðað er við lægstu tölu þá fékk Conor þrjá dollara fyrir hverja áskrift sem gerir 230.000 dollara fyrir hverja sekúndu. Þegar við það er bætt bardagatekjum og kostnaði styrktaraðila hækkar atlan upp í 275.000 dollara á sekúndur sem gerir 35 milljónir króna.

Í mestu bjartsýni fékk Conor fimm dollara fyrir hverja áskrift auk hinna teknanna sem gerir 622.000 dollara í heildina á hverja sekúndu sem hann stóð með Aldo í búrinu. Það gera 80 milljónir íslenskra króna á sekúndu.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×