Sport

Conor: Ég mun flengja Siver

Conor og Siver hittust í gær.
Conor og Siver hittust í gær. vísir/getty
UFC kynnti í gær dagskrá sína fyrir 2015 og þarf ekki að koma á óvart að Írinn Conor McGregor hafi stolið senunni á viðburðinum.

McGregor er að fara að berjast við Þjóðverjann Dennis Siver þann 18. janúar næstkomandi. Íslandsvinurinn McGregor sparaði ekki stóru orðin í gær frekar en fyrri daginn.

„Þetta er ójafn bardagi. Ég mun flengja hann, ná í ávísunina og fara heim," sagði McGregor af sinni rómuðu hógværð.

Margar stjörnur úr UFC-heiminum voru á viðburðinum. Stjörnur eins og Ronda Rousey og Jon Jones. Þau áttu erfitt með að fela hláturinn í hvert skipti sem McGregor var með hljóðnemann.

Þegar McGregor er búinn að afgreiða Siver vill hann berjast við heimsmeistarann, Jose Aldo. McGregor sá bardaga hans gegn Chad Mendez á dögunum.

„Það er fullt af veikleikum hjá Aldo sem ég get nýtt mér. Ég hef öðruvísi stíl en allir aðrir. Ég er afar bjartsýnn á að ég muni vinna stórkostlegan sigur gegn Aldo og taka yfir þessa íþrótt," sagði Írinn.

Uppgangur McGregor í UFC-heiminum hefur verið hraður. Hann er sagður vera heimsmeistarinn í ruslatali en sumir efast um getu hans í hringnum. Frábær frammistaða í síðustu tveim bardögum hefur reyndar þaggað niður í mörgum.

„Við skulum sjá í lok árs 2015 hvaða bardagamaður selur flestar Pay Per View áskriftir. Sjáum hvaða bardagamaður selur flesta miða. 2015 verður árið mitt. Ég veit að það eru margir í mínum flokki sem hata mig og væla út í eitt. Þeir geta haldið áfram að hata en þeir verða þvingaðir til þess að sætta sig við að ég er bestur."

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×