Viðskipti erlent

Commerzbank samþykkir að greiða 200 milljarða sekt

ingvar haraldsson skrifar
Commerzbank, næst stærsti banki Þýskalands, átti í ólöglegum viðskiptum við Íran og Súdan.
Commerzbank, næst stærsti banki Þýskalands, átti í ólöglegum viðskiptum við Íran og Súdan. vísir/epa
Næst stærsti banki Þýskalands, Commerzbank, hefur samþykkt að greiða bandarískum yfirvöldum 1,45 milljarða dollara, um 200 milljarða króna. Greiðslan kemur til vegna brota bankans á efnahagsþvingunum gagnvart Íran og Súdan og í tengslum við peningaþvætti japanska fyrirtækisins Olympus. BBC greinir frá.

Bankinn er sagður hafa horft framhjá lögbrotum auk þess að reyna að hylja slóð sína til að koma í veg fyrir að ólöglegar millifærslur uppgötvuðust.

Meðal sönnunargagna var tölvupóstur sem starfsmaður Commerzbank sendi samstarfsmönnum sínum:

„Ef af einhverri ástæðu CB [Commerzbank] New York spyr hvers vegna veltan hafi aukist svo mikið, ekki undir neinum kringumstæðum minnast á að það hafi verið í tengslum við greiðslujöfnun íranskra banka!!!!!!!!!!!!!“

Commerzbank er langt því frá eini bankinn sem talinn er hafa brotið gegn bandarískum efnahagsþvingunum. Í fyrra samþykkti franski bankinn BNP Paribas að greiða 8,9 milljarða dollara, um 1200 milljarða íslenskra króna sekt. Þá hefur Standard Chartered verið kærður tvívegis á þrem árum fyrir samskonar brot. Bankarnir HSBC, ING og Credit Suisse hafa einnig gerst brotlegir við reglurnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×