Enski boltinn

Coleman fótbrotinn og verður frá í langan tíma

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Coleman skoraði sigurmark Everton á Selhurst Park.
Coleman skoraði sigurmark Everton á Selhurst Park. vísir/getty
Það hefur verið staðfest að Seamus Coleman, bakvörður Everton og írska landsliðsins, fótbrotnaði í leik Írlands gegn Wales í undankeppni Heimsmeistaramótsins í Rússlandi 2018 í gær en Neil Taylor, liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea, fékk verðskuldað beint rautt spjald fyrir tæklinguna.

Atvikið átti sér stað um miðbik seinni hálfleiks þegar Taylor fór af fullu afli í hættulega tæklingu en ítalski dómarinn Nicola Rizzoli var fljótur að vísa Taylor af velli.

Þurfti börur til að koma Coleman af velli en tíu leikmenn Wales náðu að halda út og taka stig með sér heim þrátt fyrir að leika manni færri lengi vel í seinni hálfleik.

Coleman fór beinustu leið upp á spítala og fer undir hnífinn í dag en óvíst er hversu lengi hann verður frá þótt það sé á hreinu að hann leiki ekki meira á þessu tímabili.

Greindi Martin O'Neill, þjálfari írska landsliðsins, frá því að Taylor hefði komið í búningsklefa írska liðsins til að biðjast afsökunar en að Coleman hafi verið farinn upp á spítala.

Wayne Rooney, framherji enska landsliðsins og Manchester United, sendi Coleman batakveðjur á Twitter-skömmu síðar og gagnrýndi tæklinguna en tíst Rooney má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×