Fastir pennar

Cogito, ergo sum. Eða hvað?

Jón Gnarr skrifar
„Ég hugsa og þess vegna er ég,“ er heimspekileg staðhæfing sem yfirleitt er eignuð franska stærðfræðingnum, heimspekingnum og vísindamanninum René Descartes (1596-1650).

Hugmyndin er þó eldri þótt hún sé orðuð með öðrum hætti. Þessi staðhæfing er einn helsti grundvöllur vestrænnar heimspeki.

Staðhæfinguna má túlka með mismunandi hætti. Í henni er einstaklingurinn gerandi. Hann hugsar og skapar þannig hugmyndina og vitundina um sjálfan sig. Maðurinn hefur frjálsan vilja sem er þó settur undir æðri vilja sem sé vilji Guðs. Manneskjan er tvískipt, í anda og líkama. Líkaminn er ófullkominn og dýrslegur, þar búa hvatirnar og brestirnir. Sálin er á æðra plani á guðlegu sviði.

Siðfræðin snýst svo að miklu leyti um átökin þarna á milli. Við erum andlegar verur í grunninn en dregin áfram af dýrslegum hvötum sem oft koma okkur í ógöngur enda sálin fangi líkamans. Kynhvötin fer þar fremst í flokki. Hún er frumstæðust og subbulegust allra hvata. Andinn er reiðubúinn en holdið er veikt.

Trúarbrögðin grundvallast á þessu. Líf okkar og örlög dansa eftir geðþótta Guðs. Svo okkur farnist vel í lífinu þarf okkar eigin vilji að vera í sem mestu samræmi við æðri vilja hans. Hann leiðir okkur áfram. Innsæi er oft skilgreint sem leiðsögn frá Guði, eða að handan að minnsta kosti. Handanverur geta líka vitjað okkar í draumum og komið á framfæri skilaboðum.

Ég er ósammála

Ég er ósammála þessu af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi hafna ég hugmyndinni um Guð. Ég hef ekki fundið neitt sem bendir til tilvistar slíkrar veru eða fyrirbæris.

Persónuleikinn er heldur ekkert sem ég er sammála að sé óbreytanlegur hluti af einstaklingi. Það hefur sýnt sig að sjúkdómar og áföll geta breytt skapgerðareinkennum fólks. Ég þekki þetta líka sem leikari að skipta um ham og verða önnur persóna. Það getur verið andleg reynsla.

Nýjustu rannsóknir í taugavísindum benda til þess að frjáls vilji sé ekki til eða að minnsta kosti stórlega ofmetinn. Það sem ég upplifi því sem „mig sjálfan“ virðist á tálsýn byggt. Ég veit ekki með sálina eða mannsandann. Kannski er meðvitund eitthvað meira en bara líkamlegt ástand. Ég hef fengið nokkrar slíkar upplifanir sem ég get ekki útskýrt.

Ég er þó alls ekki á því að ef eitthvað andlegt sé til þá sé það þar af leiðandi yfirnáttúrulegt. Ég held að hugtakið „yfirnáttúrulegt“ sé yfirleitt einungis orð yfir náttúruleg fyrirbæri sem við höfum ekki enn náð að skilja.

Guðstrú er úrelt hugmyndafræði

Ég held því að við þurfum að losa okkur við gamlar og úreltar hugmyndir til að geta tekið við nýjum. Guðstrú er úrelt hugmyndafræði, hjátrú sem beinlínis stendur okkur fyrir þrifum á svipaðan hátt og þegar fólk til forna hélt að geðsjúklingar væru haldnir illum öndum eða sjúkdómar eða áföll væru guðleg refsing.

Guðstrú er fyrir mér lygi og lygi getur aldrei verið til blessunar. En það er bara mín skoðun og aðrir hafa fullan rétt á að mynda sér sína eigin skoðun útfrá sínum eigin upplifunum.

Heilinn er hinn raunverulegi stjórnandi lífs okkar. Hann tekur ákvarðanir sem við sjálf erum oft ekki meðvituð um. Heilarannsóknir sýna að þegar við tökum ákvarðanir er heili okkar búinn að taka hana áður en án okkar vitundar. Og oftar en ekki beitir hann okkur sjálf blekkingum til að leiða okkur áfram og fá okkur til að gera hluti. Fullorðið fólk leikur þann leik oft við börn.

Ef við værum tölva væri heilinn móðurborðið og harði diskurinn. „Við“ værum einungis viðmót. Og heilinn í mér á meira sameiginlegt með heilanum í þér heldur en í restinni af mér. Hann er ekki bundinn einstaklingum heldur er hann sjálfstæð lífvera. Og við erum einungis þjónustufólk hans. Heilinn er Guð. Heilinn hefur vilja. Við getum kallað hann sjálfstæðan eða eðlislægan. Það erum því ekki „við“ sem tökum ákvörðunina heldur heilinn. Hann er ekki hluti af okkur heldur erum við einungis hluti af honum.

Í ljósi þessa stenst staðhæfing Descartes ekki. „Ég“ er ekki vegna þess að ég hugsi. Það er hugsun og þess vegna er „ég“.






×