Erlent

CNN og New York Times meinaður aðgangur að blaðamannafundi í Hvíta húsinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bandarísku fjölmiðlunum CNN og New York Times var í dag meinaður aðgangur að blaðamannafundi í Hvíta húsinu.

Auk CNN og New York Times var blaðamönnum Los Angeles Times, Politico og Buzzfeed meinaður aðgangur að blaðamannafundinum, óformlegum fundi með fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins.

CNN var eina sjónvarpsstöðin af þeim svokölluðu fimm stóru sjónvarpsstöðum sem fékk ekki aðgang að fundinum en fulltrúar frá ABC, NBC, CBS og Fox News sátu fundinn.

Bæði CNN og New York Times hafa mótmælt ákvörðuninni harðlega og í yfirlýsingu frá aðalristjóra New York Times segir að atvikið sé einstakt í sögu Hvíta hússins.

Fulltrúar frá Associated Press og tímaritinu Time ákvaðu að sniðganga fundinn vegna ákvörðunar Hvíta hússins. Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Donald Trump, sagði aðspurður hvort að ákvörðunin tengdist óánægju með fréttaflutning fjölmiðlanna að svo væri ekki.

Donald Trump hefur gagnrýnt New York Times og CNN, ásamt fleiri fjölmiðlum, harðlega og vísar yfirleitt til New York Times sem fjölmiðils sem sé á barmi gjaldþrots. Hefur hann meðal annars ýjað að því að fjölmiðlar væru vísvitandi að hylma yfir hryðjuverkaárásir með því að segja ekki frá þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×