Enski boltinn

Clyne bjargaði stigi fyrir Southampton

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Clyne fagnar marki sínu í kvöld.
Clyne fagnar marki sínu í kvöld. vísir/getty
Southampton gaf eftir í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar er liðið mátti sætta sig við 1-1 jafntefli gegn Aston Villa á útivelli í kvöld.

Heimamenn í Aston Villa hafa átt erfitt uppdráttar að undanförnu og ekki unnið deildarleik síðan 13. september. En Gabriel Agbonlahor kom þeim yfir á 29. mínútu eftir afar slakt úthlaup markvarðarins Fraser Forster.

Vörn Southampton hafði haldið hreinu í 439 mínútur í röð þegar Agbonlahor skoraði markið en sóknarleikur liðsins gekk hægt í kvöld.

Jöfnunarmarkið kom þó þegar níu mínútur voru til leiksloka er Nathaniel Clyne, bakvörðurinn ungi, skoraði með föstu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Ryan Bartrand, vinstri bakvarðarins.

Southampton er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar og er nú með 26 stig, sex stigum á eftir toppliði Chelsea. Englandsmeistarar Manchester City koma svo næstir með 24 stig en önnur lið eru með færri en 20 stig.

Aston Villa fór upp í sextánda sætið með stiginu í kvöld en liðið er nú með tólf stig eftir jafn marga leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×