Erlent

Clinton segir rússnesku leyniþjónustuna bera ábyrgð á tölvuárás

Atli Ísleifsson skrifar
Hillary Clinton er forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum.
Hillary Clinton er forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum. Vísir/EPA
Hillary Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, segir rússnesku leyniþjónustuna bera ábyrgð á tölvuárás sem gerð var á tölvukerfi Demókrataflokksins.

Í samtali við sjónvarpsstöðina Fox News sakaði Clinton jafnframt Donald Trump, frambjóðanda Repúblikanaflokksins um að styðja Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

„Við vitum að rússneska leyniþjónustan braust inn í tölvukerfi Demókrataflokksins og við vitum að þeir sáu til þess að mörgum þessara tölvupósta var lekið. Við vitum líka að Donald Trump hefur sýnt óþægilegan vilja til að styðja Pútín,“ sagði Clinton.

Fyrr í vikunni var greint frá því að tölvuþrjótar hefðu komist yfir viðkvæmar upplýsingar um forsetaframboð Clinton.

Áður hafði trúnaðargögnum einnig verið stolið sem sýndu fram á að hluti starfsmanna flokksins hafi verið hlutdrægir í forkosningum flokksins sem leiddu til þess að Debbie Wassermann Schultz þurfti að segja af sér sem framkvæmdastjóri flokksins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×